Það bendir allt til þess að enski knattspyrnumaðurinn Declan Rice sé á leiðinni til Arsenal.
Rice, sem hefur verið mikið í umræðunni undanfarið, hefur verið sterklega orðaður við Arsenal allt frá byrjun júní. Önnur félög voru þó líka að eltast við miðjumanninn en þýska stórveldið Bayern München var orðað við kappann sem og Manchester United.
Nú greina þýskir fjölmiðlar frá því að Bayern muni ekki bjóða í Rice, þar sem þeir telja hann orðinn of dýran, og vita að hans fyrsti kostur sé Arsenal.
Í tilviki Manchester United eru aðrar stöður á vellinum sagðar vera ofar á lista félagsins, og að Rice vilji helst búa áfram í Lundúnum.
Rice mun fara frá West Ham í sumar eins og David Sullivan, stjórnarformaður félagsins, greindi frá eftir sigur West Ham í úrslitaleik Sambandsdeildarinnar. Nú virðist sem svo að fátt komi í veg fyrir að hann endi í Norður-Lundúnum.