Ef marka má katarska fjölmiðla hafa eigendur enska knattspyrnufélagsins Manchester United samþykkt tilboð sjeiksins Jassim bin Hamad Al-Thani um að kaupa félagið.
Sjeikinn hefur lagt fram fjölda tilboða í enska stórveldið og greinir Al-Watan, katarskur miðill í eigu föður hans, sem er fyrrverandi forsætisráðherra Katars, frá því að síðasta kauptilboðinu hafi nú verið tekið.
Daily Mail greinir frá því að upphæðin nemi um fimm milljörðum punda og að fjárfestahópur á vegum Al-Thani myndi þá eignast 100 prósent hlut í félaginu.
Breskir fjölmiðlar hafa undanfarið greint frá því að Sir Jim Ratcliffe, stærsti einstaki landeigandi á Íslandi og ríkasti maður Bretlandseyja, væri fremstur í kapphlaupinu með tilboði sínu um að eignast 60 prósent hlut í félaginu.
Í gærkvöldi kom hins vegar fram á Twitter-aðgangi Al-Watans að bandarískir eigendur Man. United, Glazer-fjölskyldan, hafi samþykkt kauptilboð Al-Thanis og að tilkynnt yrði formlega um það bráðlega.
Reynist það rétt þarf enska úrvalsdeildin að samþykkja kaupin á Manchester United áður en formlega verður skipt um eigendur.