Tilboði Liverpool hafnað

Federico Valverde.
Federico Valverde. AFP/Javier Soriano

Enska knattspyrnufélagið Liverpool lagði á dögunum fram tilboð í úrúgvæska miðjumanninn Federico Valverde, leikmann Real Madríd. Spænska félagið hafnaði því tafarlaust.

Katalónski miðillinn El Nacional greinir frá því að tilboðið hafi hljóðað upp á 51 milljón punda.

Daily Mail bætir því við að Real meti Valverde á 85 milljónir punda.

Liverpool hyggst bæta við sig miðjumönnum í sumar. Félagið hefur þegar fest kaup á argentínska heimsmeistaranum Alexis Mac Allister frá Brighton en breskir fjölmiðlar segja Liverpool ætla sér að kaupa að minnsta kosti einn miðjumann til viðbótar, helst tvo.

Í tilboði Liverpool voru ýmis ákvæði um aukalegar greiðslur að vissum ákvæðum uppfylltum en Florentino Pérez, forseti Real Madríd, hyggst ekki fara í neinar viðræður nema tilboð upp á 85 milljónir berist í einu og öllu.

Hinn 24 ára gamli Valverde hefur verið lykilmaður hjá Real undanfarin tímabil þar sem hann leikur oftast á miðjunni en getur einnig leyst stöðu hægri kantmanns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka