Kauptilboð katarska sjeiksins Jassim bin Hamad Al-Thani í enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur ekki verið samþykkt af bandarískum eigendum þess, Glazer-fjölskyldunni.
Katarski miðillinn Al-Watan greindi frá því í gær að sjeikinn hefði haft betur gegn Sir Jim Ratcliffe, ríkasta manni Bretlandseyja, en fjárfestahópar á vegum þeirra tveggja hafa verið um hituna og lagt fram nokkur tilboð undanfarna mánuði.
The Athletic greinir frá því að þær fullyrðingar eigi ekki við rök að styðjast.
Eins og greint var frá í gær er Al-Watan-miðillinn í eigu föður Al-Thani, fyrrverandi forsætisráðherra Katars.
Ritstjóri katarska miðilsins hljóp á sig þar sem hann byggði fréttina á tísti frá litlum, að því er virðist handahófskenndum, aðgangi í eigu manns sem er búsettur í Cardiff í Wales og er einungis með 250 fylgjendur. Áreiðanleiki aðgangsins telst því enginn.
Hið rétta er að enn hefur Glazer-fjölskyldan ekki ákveðið hvort hún selji 100 prósenta hlut til Al-Thani eða 60 prósenta hlut til Ratcliffes.