Knattspyrnumaðurinn James Milner er genginn til liðs við enska úrvalsdeildarfélagið Brighton.
Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni í dag en Milner, sem er 37 ára gamall, kemur til félagsins frá Liverpool þar sem hann hefur leikið frá árinu 2015.
Miðjumaðurinn skrifaði undir eins árs samning við Brighton en alls á hann að baki 619 leiki í ensku úrvalsdeildinni með Liverpool, Manchester City, Newcastle, Aston Villa og Leeds.
Hann hefur unnið allt sem hægt er að vinna sem knattspyrnumaður, þar á meðal ensku úrvalsdeildina í þrígang, og þá lék hann 61 A-landsleik fyrir England á árunum 2009 til 2016.