Marcus Rashford, sóknarmaður Manchester United og enska landsliðsins í knattspyrnu, gefur lítið fyrir gagnrýni í sinn garð eftir að hann dró sig úr landsliðshópnum í mars síðastliðnum vegna meiðsla.
Eftir að hafa dregið sig úr hópnum sætti Rashford gagnrýni fyrir að fara í frí til New York. Gareth Southgate landsliðsþjálfari varði þá ákvörðun og útskýrði Rashford málið nánar á blaðamannafundi í gær.
„Ég þarf tíma til þess að kúpla mig út og jafna mig. Ég fór í stutta ferð, fjóra daga, kom svo til baka í endurhæfingu til þess að reyna að verða leikfær eins fljótt og mögulegt væri.
Það er ekki hægt að spá fyrir um hvenær meiðsli eiga sér stað. Stundum verður maður fyrir álagsmeiðslum. Ég veit að ég er 100 prósent skuldbundinn Englandi.
Fólk segir það sem það vill segja. Það truflar mig í raun ekkert,“ sagði sóknarmaðurinn öflugi.
Rashford er í leikmannahópi Englands fyrir tvo leiki í undankeppni EM 2024 á næstunni, gegn Norður-Makedóníu og Möltu.