Jón Daði Böðvarsson hefur framlengt samning sinn við enska knattspyrnufélagið Bolton Wanderers.
Félagið hefur staðfest að um eins árs framlengingu sé að ræða, til sumarsins 2024.
Jón Daði kom til Bolton í janúar 2022 eftir að hafa leikið í ensku B-deildinni frá 2016 með Wolves, Reading og Millwall.
Bolton hefur leikið í C-deildinni þessi tvö tímabil en liðið hafnaði í fimmta sætinu í vor og fór í umspil um sæti í B-deild en féll þar út í undanúrslitum.
Jón Daði skoraði 8 mörk í 27 mótsleikjum á tímabilinu. Hann missti af síðustu mánuðum tímabilsins vegna meiðsla en verður klár í slaginn þegar deildin byrjar á ný í ágúst.
Jón Daði er 31 árs gamall Selfyssingur sem lék með Viking í Noregi og Kaiserslautern í Þýskalandi áður en hann fór til Englands. Hann á að baki 64 landsleiki fyrir Íslands hönd og lék á EM 2016 og HM 2018.
Hann hefur leikið 382 deildaleiki á ferlinum, á Íslandi, í Noregi, Þýskalandi og Englandi, og skorað í þeim 66 mörk.
Looks good. Looks fine. 😍#bwfc pic.twitter.com/4QdkdvdN76
— Bolton Wanderers (@OfficialBWFC) June 13, 2023