Spænski knattspyrnustjórinn Andoni Iraola verður næsti stjóri Bournemouth en þetta staðfesti félagið rétt í þessu.
Fyrr í dag ráku Bournemouth-menn Englendinginn Gary O'Neil, þrátt fyrir að hann hafi haldið liðinu uppi. Bill Foley, eigandi félagsins, sagði ákvörðunina vera langtímahugsun.
Iraola var orðaður við falllið Leeds fyrr á árinu en hann vildi ekki fara frá Rayo Vallecano, hans fyrrverandi félagi, þá. Nú er hins vegar samningur hans hjá félaginu runninn út.
„Við erum svo spenntir að bjóða Andoni velkominn til félagsins. Þar sem samningur hans á Spáni rann út í sumar vildum við bregðast hratt við.
Hann var mjög eftirsóttur af öðrum félögum um álfuna og leikstíll er afar spennandi og mikilvægur þáttur í þessari ákvörðun,“ sagði Foley meðal annars í tilkynningunni.