Það er brjálað að gera hjá enska knattspyrnufélaginu Arsenal um þessar mundir en félagið er komið langt með að tryggja sér fjóra nýja leikmenn.
Fyrst og fremst er Arsenal á eftir Declan Rice, miðjumanni West Ham, en félagið er við það að gera nýtt 100 milljóna punda tilboð í Englendinginn.
Arsenal er einnig á eftir Þjóðverjanum Kai Havertz, sóknarmanni Chelsea, en samkvæmt enskum miðlum hefur Norður-Lundúnafélagið gert nýtt 60 milljóna punda tilboð í hann.
Hollenski miðvörðurinn Jurriën Timber, leikmaður Ajax, er ofarlega á óskalista félagsins, en hinn áreiðanlegi David Ornstein greindi frá áhuga Arsenal á leikmanninum í gær.
Að lokum er Arsenal komið langt í viðræðum um að kaup á Belganum Roméo Lavia, miðjumanni Southampton, en á þá félagið eftir að gera tilboð í þennan fyrrverandi leikmann Manchester City.
Það sem er kannski mikilvægast í þessu öllu saman er að samkvæmt helstu blaðamönnum Evrópu vilja leikmennirnir fjórir helst spila fyrir Arsenal, og því er ekki mikil mótspyrna frá öðrum félögum, í bili.