Leiktíma í leiknum um Samfélagsskjöldinn, leik meistara meistaranna í enska karlafótboltanum, hefur verið breytt eftir kvartanir stuðningsmanna Manchester City.
Leikurinn fer fram á Wembley í Lundúnum þar sem Englands- og bikarmeistarar Man. City mæta Arsenal, sem hafnaði í öðru sæti í ensku úrvalsdeildinni.
Upphaflega átti leikurinn að hefjast klukkan 17.30 sunnudaginn 6. ágúst en nýr leiktími er klukkan 16 sama dag.
Ástæðan fyrir umkvörtunum stuðningsmanna Man. City laut að fyrirséðum erfiðleikum við að ferðast frá Manchester til Lundúna.
Hótuðu þeir að sniðganga leikinn með öllu vegna þeirra erfiðleika.
Enska knattspyrnusambandið hefur nú brugðist við og afráðið að flýta leiknum um 90 mínútur, sem ætti að gera stuðningsmönnunum auðveldara um vik að ferðast til og frá Lundúnum.