Margir leikmenn enska knattspyrnufélagsins Chelsea virðast vera á leið til Sádi-Arabíu þessa dagana.
The Athletic greinir frá því að Kalidou Koulibaly, Romelu Lukaku, Edouard Mendy og Hakim Ziyech séu allir að ganga til liðs við félög þar í landi sem og þeir Pierre-Emerick Aubameyang og Cullum Hudson-Odoi.
Þá greindi ítalski félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano frá því í morgun að N'Golo Kanté væri búinn að skrifa undir fjögurra ára samning við Al-Ittihad.
Koulibaly átti fast sæti í hjarta varnarinnar hjá Chelsea síðustu leiktíð en þeir Mendy, Ziyech og Aubameyang fengu fá tækifæri í byrjunarliðinu.
Þá lék Lukaku með Inter Mílanó í ítölsku A-deildinni á láni frá Chelsea á síðustu leiktíð og Hudson-Odoi lék með Bayer Leverkusen í Þýskalandi.