Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester City ætla sér að leggja fram tilboð í enska miðjumanninn Declan Rice í dag.
Það er The Athletic sem greinir frá þessu en Rice, sem er 24 ára gamall, er samningsbundinn West Ham á Englandi.
Arsenal hefur nú þegar lagt fram tvö tilboð í leikmanninn, það síðasta hljóðaði upp á 90 milljónir punda, en West Ham vill fá í kringum 100 milljónir punda fyrir landsliðsmanninn.
Í gær bárust fréttir af því að Ilkay Gündogan myndi ganga til liðs við Barcelona þegar samningur hans við City rennur út um mánaðarmótin, en hann var fyrirliði City á nýliðnu keppnistímabili.
Chelsea hefur nú þegar samþykkt kauptilboð City í króatíska miðjumanninn Mateo Kovacic en Pep Guardiola vill styrkja miðsvæðið hjá sér fyrir komandi keppnistímabil og horfir nú til Rice.