Þrefaldir meistarar Manchester City í knattspyrnu hafa lagt fram tilboð í enska landsliðsmanninn Declan Rice, fyrirliða West Ham United.
Sky Italy greinir frá því að tilboðið hljóði upp 75 milljónir punda auk 15 milljóna til viðbótar að ákveðnum ákvæðum uppfylltum, sem er fyrirhugað að yrðu borgaðar í tveimur greiðslum.
Arsenal hefur þegar lagt fram tvö tilboð í Rice, það síðasta upp á samtals 90 milljónir punda líkt og City nú, en Hamrarnir hafa hafnað þeim báðum.
Talið er að West Ham vilji fá 100 milljónir punda fyrir miðjumanninn öfluga en greiðslufyrirkomulagið, þ.e. hve há upphæð berst í vasa félagsins þegar í stað, gæti haft sitt að segja í baráttu City og Arsenal um að tryggja sér þjónustu Rice.