Grétar Rafn Steinsson hefur látið af störfum sem frammistöðustjóri enska knattspyrnufélagsins Tottenham Hotspur.
Enski fótboltamiðillinn Football.London greinir frá því að Grétar Rafn hafi þegar sagt skilið við enska félagið, sem vinnur nú að endurskipulagningu í efstu lögum þess, sem felur meðal annars í sér að fækka millistjórnendum.
Grétar Rafn tók við starfinu síðastliðið sumar og hafði umsjón með frammistöðu leikmanna auk þess að vinna náið með þjálfarateymum aðal- og yngri liða félagsins.
Í vor fékk Siglfirðingurinn stærra hlutverk eftir að Fabio Paratici lét af störfum sínum sem yfirmaður knattspyrnumála í kjölfar þess að Ítalinn var úrskurðaður í hálfs árs bann frá afskiptum af fótbolta.
Tók Grétar Rafn þá yfir verkefni Paraticis tímabundið á meðan leit að arftaka þess síðarnefnda stóð yfir, sem hún gerir raunar enn.
Grétar Rafn starfaði um þriggja ára skeið fyrir Everton þar sem hann var fyrst yfirnjósnari félagsins utan Bretlandseyja og síðan aðstoðarmaður Marcels Brands, fyrrverandi yfirmanns knattspyrnumála hjá Everton.
Þar á undan hafði hann starfað sem tæknistjóri hjá enska félaginu Fleetwood Town um fjögurra ára skeið.