Fyrirliði Chelsea á förum

Líklega var um kveðjukoss að ræða hjá César Azpilicueta eftir …
Líklega var um kveðjukoss að ræða hjá César Azpilicueta eftir lokaumferðina í ensku úrvalsdeildinni í lok síðasta mánaðar. AFP/Justin Tallis

Spænski knattspyrnumaðurinn César Azpilicueta, fyrirliði Chelsea, er á leið til Inter Mílanó á Ítalíu þar sem hann mun skrifa undir tveggja ára samning.

Azpilicueta verður 34 ára síðar á árinu og hefur leikið með Chelsea undanfarin ellefu ár.

Þar hefur hann unnið allt sem hægt er að vinna; Meistaradeild Evrópu, ensku úrvalsdeildina tvisvar, Evrópudeildina tvisvar, ensku bikarkeppnina, enska deildabikarinn, heimsmeistarakeppni félagsliða og Ofurbikar Evrópu.

Varnarmaðurinn á enn eitt ár eftir af samningi sínum við Chelsea en félagið mun hleypa honum frítt til Ítalíu, að því er ítalski félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano greinir frá.

Azpilicueta er þegar búinn að samþykkja tveggja ára samning hjá Inter og má því búast við formlegri tilkynningu um félagaskiptin á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka