Kluivert í ensku úrvalsdeildina

Justin Kluivert í leik með Valencia í síðasta mánuði.
Justin Kluivert í leik með Valencia í síðasta mánuði. AFP/José Jordan

Enska knattspyrnufélagið Bournemouth hefur fest kaup á hollenska vængmanninum Justin Kluivert. Kemur hann frá ítalska félaginu Roma og skrifaði undir langtímasamning.

Kaupverðið er 9,6 milljónir punda.

Hinn 24 ára gamli Kluivert hóf ferilinn hjá Ajax í heimalandinu og vakti athygli fjölda evrópskra stórliða með vasklegri framgöngu á unga aldri.

Svo fór að Roma festi kaup á honum fyrir 15 milljónir punda þegar Kluivert var 19 ára gamall.

Eftir að hafa byrjað ferilinn í ítölsku höfuðborginni vel fór að halla undan fæti þegar á leið og hefur Kluivert leikið annars staðar á láni undanfarin þrjú tímabil.

Fyrst var hann lánaður til RB Leipzig í Þýskalandi tímabilið 2020-21, þá til Nice í Frakklandi tímabilið 2021-22 og loks Valencia á nýafstöðnu tímabili, þar sem Kluivert stóð sig einkar vel og skoraði átta mörk í 29 leikjum í öllum keppnum.

Hollendingurinn, sem er sonur goðsagnarinnar Patrick Kluivert, á tvo A-landsleiki að baki og er fyrstu kaup Andoni Iraola, nýráðins knattspyrnustjóra Bournemouth, fyrir komandi tímabil.

Bournemouth leikur áfram í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili eftir að hafa haldið sæti sínu sem nýliði á því síðasta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka