Bjóða Silva nýjan samning

Bernardo Silva í baráttu við Sverri Inga Ingason í leik …
Bernardo Silva í baráttu við Sverri Inga Ingason í leik Íslands og Portúgals í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enska knattspyrnufélagið Manchester City hefur boðið portúgalska miðjumanninum Bernardo Silva nýjan samning með það fyrir augum að koma í veg fyrir mögulega brottför hans til Sádi-Arabíu.

Al-Nassr, þar sem landi hans Cristiano Ronaldo er á mála, er sagt hafa boðið Silva gull og græna skóga en hann er þó enn samningsbundinn Man. City til sumarsins 2025.

The Times greinir frá því að enska félagið, sem vann þrefalt á nýafstöðnu tímabili, hafi boðið Portúgalanum nýjan og endurbættan samning í því skyni að fá hann til að snúast hugur, þó ekki komi fram hvort nýi samningurinn feli í sér framlengingu eða einungis bætt kjör.

Ásamt Al-Nassr eru Frakklandsmeistarar Parísar SG og Spánarmeistara Barcelona áhugasamir um að tryggja sér þjónustu Silva, sem hefur leikið fyrir Man. City undanfarin sex ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka