Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Cédric Roussel er látinn, aðeins 45 ára að aldri. Belginn Roussel lék meðal annars í ensku úrvalsdeildinni með Coventry City um 16 mánaða skeið.
„Coventry City er miður sín að frétta af andláti fyrrverandi sóknarmanns okkar, Cédric Roussel. Við sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina hans á þessari sorglegu stundu,“ sagði í tilkynningu frá Coventry.
Roussel lék 43 leiki fyrir liðið og skoraði 11 mörk í þeim á árunum 1999 til 2001, þar sem hann átti góðu samstarfi að fagna við Robbie Keane í fremstu víglínu.
Hann var seldur til Wolverhampton Wanderers í febrúar árið 2001 og lék með Úlfunum í ensku B-deildinni um 18 mánaða skeið.
Roussel lék þrjá A-landsleiki fyrir Belgíu árið 2003 og lék fyrir Mons, Genk, Gent, Standard Liege, Zulte Waregem og La Louviere í heimalandinu, þar sem hann var reglulega á skotskónum.
Einnig var Roussel á mála hjá Rubin Kazan í Rússlandi og Brescia á Ítalíu um skeið. Meiðsli settu strik í reikninginn á stórum hluta ferils Roussel og lék hann sinn síðasta leik sem atvinnumaður fyrir Mons 32 ára gamall. Lagði hann svo skóna formlega á hilluna 37 ára gamall eftir að hafa leikið í neðri deildum Belgíu og Hollands.
Samkvæmt belgískum fjölmiðlum var dánarorsök Roussels hjartastopp.