Enska knattspyrnufélagið Arsenal er komið með franskan landsliðsmann í sigtið ef félaginu tekst ekki að krækja í Declan Rice, fyrirliða West Ham, í sumar.
Arsenal hefur gert West Ham tvö tilboð í Rice en báðum hefur verið hafnað, og nú er Manchester City komið í slaginn um að fá enska landsliðsmanninn í sínar raðir.
Talið er að þar með standi Arsenal höllum fæti í baráttunni en Daily Mail segir í dag að Lundúnafélagið hafi augastað á franska miðjumanninum Youssouf Fofana hjá Mónakó, nái það ekki að klófesta Rice.
Fofana er 24 ára gamall og myndi kosta í kringum 30 milljónir punda. Hann hóf að leika með franska landsliðinu á síðasta ári og á 10 landsleiki að baki.