Franski knattspyrnumaðurinn Adrien Rabiot hefur fengið tilboð frá Manchester United en samningur hans við Juventus á Ítalíu rennur út um mánaðamótin.
Ítalskir fjölmiðlar greina frá þessu í dag en Juventus á nú á hættu að missa hann frá sér án greiðslu. Rabiot er 28 ára miðjumaður sem var í stóru hlutverki hjá liðinu í vetur, þar sem hann skoraði 11 mörk og átti sex stoðsendingar í 48 mótsleikjum.
Gazzetta dello Sport segir í dag að Rabiot hafi verið boðinn afar góður samningur hjá Manchester United en hann hafi ekki enn gert upp hug sinn. Juventus vill halda honum og hefur boðið honum nýjan eins árs samning en gæti reynt að gera betur við hann í kjölfarið á tilboðinu frá Englandi.