Sádiarabíska knattspyrnufélagið Al-Hilal keypti senegalska varnarmanninn Kalidou Koulibaly frá Chelsea í gærkvöld og greiddi samtals 67 milljónir punda í gær fyrir tvo leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni.
Fyrr um daginn var gengið frá kaupum félagsins á portúgalska miðjumanninum Rúben Neves frá Wolves fyrir 47 milljónir punda. Kaupverðið á Koulibaly hefur ekki verið gefið formlega upp en samkvæmt enskum fjölmiðlum nemur það um 20 milljónum punda.
Koulibaly er 32 ára miðvörður sem Chelsea keypti fyrir ári síðan af Napoli og samdi við til fjögurra ára. Hann lék 32 leiki fyrir félagið og skoraði tvö mörk.