Englands- og Evrópumeistarar Manchester City tilkynntu nú síðdegis að þeir hefðu gengið frá kaupunum á króatíska miðjumanninum Mateo Kovacic frá Chelsea.
Kaupverðið er um 25 milljónir punda og samningur hans við City er til fjögurra ára.
Kovacic er 29 ára gamall og hefur leikið 95 landsleiki fyrir Króatíu. Hann hefur leikið með Chelsea frá árinu 2018 en var þar á undan með Real Madrid í þrjú ár og Inter Mílanó í tvö ár.
Hann spilaði 142 úrvalsdeildarleiki með Chelsea og skoraði í þeim fjögur mörk, varð Evrópumeistari með liðinu árið 2021 og Evrópudeildarmeistari árið 2019.
Kovacic varð þrisvar Evrópumeistari með Real Madrid og einu sinni spænskur meistari. Hann var í landsliði Króatíu sem fékk silfrið á heimsmeistaramótinu árið 2018 og bronsið árið 2022.