Enska knattspyrnufélagið Tottenham Hotspur er komið langt með að festa kaup á enska landsliðsmanninum James Maddison á 40 milljónir punda frá Leicester City.
BBC Sport greinir frá því að Maddison sé á leið í læknisskoðun hjá Lundúnafélaginu í dag.
Hann hefur leikið með Leicester frá árinu 2018 og skoraði tíu mörk í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili en gat þó ekki komið í veg fyrir fall niður í B-deild.
Maddison vann ensku bikarkeppnina með Leicester árið 2021.
Gangi skiptin eftir verður hann þriðji leikmaðurinn sem Tottenham festir kaup á í sumar eftir að ítalski markvörðurinn Guglielmo Vicario kom frá Empoli og Dejan Kulusevski var keyptur frá Juventus eftir að hafa leikið sem lánsmaður undanfarna 18 mánuði.