Arsenal með mettilboð í einn þann eftirsóttasta

Declan Rice í leik með enska landsliðinu á dögunum.
Declan Rice í leik með enska landsliðinu á dögunum. AFP/Matthew Mirabelli

Enska knattspyrnufélagið Arsenal hefur lagt fram nýtt og endurbætt tilboð í enska landsliðsmanninn Declan Rice, miðjumann West Ham United. Tilboðið hljóðar upp á alls 105 milljónir punda, metfé á Bretlandseyjum.

The Athletic greinir frá því að Arsenal sé nú búið að bjóða 100 milljónir punda auk þess sem fimm milljónir punda geta bæst við að ýmsum ákvæðum uppfylltum.

Jack Grealish, vængmaður þrefaldra meistara Manchester City, er dýrasti leikmaður í sögu Bretlandseyja en félagið keypti hann fyrir 100 milljónir punda sumarið 2021.

Um þriðja tilboð Arsenal í Rice er að ræða en West Ham hefur hafnað fyrri tveimur tilboðum félagsins, síðast upp á samtals 90 milljónir punda.

Man. City er einnig áhugasamt og hefur West Ham sömuleiðis hafnað tilboði félagsins upp á samtals 90 milljónir punda.

Búist er við því að Man. City leggi fram nýtt og endurbætt tilboð í dag.

Jacob Steinberg, íþróttafréttamaður hjá The Guardian, greindi frá því í gærkvöldi að West Ham væri ekki búið að samþykkja nýtt tilboð Arsenal þar sem Hamrarnir væru ekki sáttir við greiðslufyrirkomulagið sem það felur í sér. Þó væri félagið ekki heldur búið að hafna tilboðinu, viðræður séu áfram í gangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka