Enska knattspyrnufélagið Manchester City hefur ákveðið að draga sig úr kapphlaupinu um enska landsliðsmanninn Declan Rice, miðjumann West Ham United.
Í gærkvöldi bauð Arsenal þriðja sinni í Rice, 100 milljónir punda auk fimm milljóna að ákveðnum ákvæðum uppfylltum, og var reiknað með því að Man. City myndi sömuleiðis leggja fram nýtt tilboð í dag.
BBC Sport greinir hins vegar frá því að þrefaldir meistarar Man. City muni ekki gera það og er Arsenal því eitt um hituna sem stendur.
Viðræður milli Arsenal og West Ham standa nú yfir og lúta þær fyrst og fremst að greiðslufyrirkomulagi Arsenal, þar sem West Ham vill fá sem mest greitt sem fyrst á meðan Arsenal vill skipta upphæðinni í nokkrar greiðslur yfir lengra tímabil.