Tom Lockyer, fyrirliði Luton Town, nýliða í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, er búinn að fá grænt ljós á að halda áfram að æfa og spila eftir að hafa hnigið niður í úrslitaleik gegn Coventry City um laust sæti í deildinni í maí síðastliðnum.
Lockyer þurfti að fara snemma af velli í þeim leik eftir að hafa hnigið niður á vellinum. Eftir að hafa verið skoðaður í bak og fyrir kom í ljós að það gerðist vegna hjartavandamála, nánar tiltekið óreglulegs hjartsláttar.
Hann er nú búinn að gangast undir hjartaaðgerð til þess að laga meinið og hefur fengið grænt ljós á að hefja æfingar með Luton á undirbúningstímabilinu sem fer senn í hönd og í framhaldinu spila með liðinu.
Félagið tilkynnti þá í dag að Lockyer hefði skrifað undir nýjan samning, þó ekki kæmi fram til hversu margra ára hann væri.
Hann hefur leikið með Luton frá árinu 2020 og á að baki yfir 100 leiki.