Drakk mikið og misnotaði svefntöflur

Dele Alli var talið eitt mesta efni Englands.
Dele Alli var talið eitt mesta efni Englands. Skjáskot/Evening

Fótboltaheimurinn hefur sýnt fótboltamanninum Dele Alli mikinn stuðning í dag eftir að viðtal við hann birtist á YouTube-síðunni The Overlap. 

Þar birtist viðtal Gary Neville við Dele Alli sem fjallar um ferilinn sinn og baráttu við fíknina, og talar hann opinskátt í viðtalinu um tímann þegar hann var háður svefntöflum og misnotaði þær.

Dele Alli fer víða í þessu 45 mínútna viðtali og segir hann í viðtalinu að hann hafi drukkið mikið áfengi eftir margar misheppnaðar tilraunir að ná fótfestu í fótboltanum og að lokum hafi hann verið byrjaður að misnota svefntöflur.

„Það er erfitt að tala um þetta því ég hef falið þetta svo lengi,“ sagði Alli en hann fór í sex vikna meðferð í sumar.

„Þegar ég kom til baka frá Tyrklandi og frétti að ég þyrfti að fara í meðferð fór ég á slæman stað andlega.“ 

Dele Alli var eitt sinn vonarstjarna Englands og voru miklar vonir bundnar í þennan efnilega leikmann þegar hann lék með Tottenham í ensku úrvalsdeildinni en honum hefur ekki enn tekist að ná þeim hæðum sem af honum var ætlast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert