Var kynferðislega misnotaður í æsku

Dele Alli greindi frá erfiðum æskuárum í nýju viðtali.
Dele Alli greindi frá erfiðum æskuárum í nýju viðtali. Skjáskot/YouTube

Enski knattspyrnumaðurinn Dele Alli kom fram í viðtali sem birtist í morgun þar sem hann talar um erfiða æsku sína.

Í viðtalinu fer Dele Alli yfir æskuárin sín og greindi frá því að hann hafi verið misnotaður af vini móður sinnar þegar hann var sex ára.

Móðir hans glímdi við alkóhólisma og var í slæmum félagsskap sem endaði með þessum ósköpum. Ári seinna, þegar Alli var orðinn sjö ára, byrjaði hann að reykja og selja fíkniefni.

„Eldri maður sagði við mig að enginn stöðvaði lítinn krakka á hjóli svo ég hjólaði um með fótboltann minn og byrjaði að selja fíkniefni og engan grunaði.“

Dele Alli var ættleiddur þegar hann var 12 ára gamall og segist hann vera ævinlega þakklátur fósturfjölskyldu sinni og það sem þau gerðu fyrir hann. 

Gríðarlegur stuðningur

Hann hefur fengið mikinn stuðning á samfélagsmiðlum frá knattspyrnufélögum, fyrrverandi og núverandi liðsfélögum, kærustunni sinni og aðdáendum íþróttarinnar en ensku félögin Tottenham og Everton hafa sýnt honum mikinn stuðning á samfélagsmiðlum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert