Verður ekki tilbúinn fyrir fyrsta leikinn

Framkvæmdir standa nú yfir á Anfield.
Framkvæmdir standa nú yfir á Anfield. AFP

Heimavöllur enska knattspyrnufélagsins Liverpool, Anfield, verður ekki fullklár þegar liðið tekur á móti Bournemouth 19. ágúst.

Framkvæmdir á efstu stúkunni Anfield Road-megin standa nú yfir en völlurinn verður stækkaður og hægt verður að taka á móti 61.000 áhorfendum í sæti. Anfield verður með þessu fjórði stærsti leikvangur félagsliða á Englandi en Old Trafford tekur flesta áhorfendur í sæti, 74.310 manns.

Framkvæmdirnar hófust í september árið 2021 en til þess að standast byggingarreglur Liverpool-borgar þarf verktakinn að klára mörg tímafrek verkefni. Því er búist við að leikvangurinn verði ekki fullklár fyrr en um lok september.

Þegar leikvangurinn er fullklár má búast við að það bætist verulega í fjölda starfsfólks en talið er að stækkunin muni fjölga starfsfólki um 400 og á leikdegi starfi um 2.800 manns á vellinum. Forráðamenn félagsins hafa gefið út að þeim sem hafi keypt ársmiða í nýja hluta vallarins verði komið fyrir á öðrum stöðum þar til opnað hefur verið fyrir stúkuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert