Enska knattspyrnufélagið Brighton & Hove Albion hefur samþykkt tilboð Liverpool í ekvadorska miðjumanninn Moisés Caicedo. Tilboðið hljóðar upp á samtals 110 milljónir punda, sem yrði met fyrir leikmann á Bretlandseyjum.
Brighton gaf Liverpool og Chelsea frest til miðnættis í gær til þess að leggja fram sem hæst tilboð. Liverpool bauð 110 milljónir og Chelsea 100 og hafði Liverpool því betur í baráttunni.
Caicedo er 21 árs varnartengiliður sem hefur leikið frábærlega fyrir Brighton undanfarið eitt og hálft ár.
The Athletic greinir frá því að Ekvadorinn gangist undir læknisskoðun í dag og að talið sé að viðræður um kaup og kjör leikmannsins muni reynast formsatriði.
Því er reiknað með því að skiptin gangi í gegn síðar í dag eða á morgun.