Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, og John Murtough, yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu, eru á meðal þeirra sem vilja Mason Greenwood aftur í leikmannahóp liðsins.
The Athletic greinir frá því að Richard Arnold, framkvæmdastjóri félagsins, hafi tilkynnt starfsfólki í æðstu stöðum hjá félaginu það fyrir tveimur vikum að ákvörðun hafi verið tekin um að Greenwood myndi verða hluti af hópnum á ný og að ten Hag og Murtough styðji þá ákvörðun.
Greenwood var handtekinn í janúar árið 2022 og var síðar ákærður fyrir tilraun til nauðgunar og líkamsárás í garð kærustu sinnar, Harriet Robson. Hefur hann ekki spilað fyrir uppeldisfélag sitt síðan þá.
Robson hafði birt myndskeið og ljósmyndir af áverkum sínum, sem hún sagði vera af hendi Greenwoods, og hljóðupptöku af því þegar hann hótaði að nauðga Robson og beita hana ofbeldi.
Málið var látið niður falla þegar lykilvitni í því hætti við að bera vitni.
Greenwood og Robson tóku aftur saman og eignuðust barn saman fyrr á árinu.
Manchester United fann sig í dag knúið til þess að gefa út yfirlýsingu í þar sem það kvaðst ekki hafa tekið endanlega ákvörðun þrátt fyrir að rannsókn félagsins á málinu sé lokið.
Upphaflega átti að tilkynna ákvörðunina að rannsókn lokinni, áður en tímabilið hæfist, en tilkynningunni var frestað og greint frá því að álits yrði leitað hjá leikmönnum kvennaliðs félagsins áður en endanleg ákvörðun yrði tekin.
Stuðningsmenn Manchester United skiptast í fylkingar vegna málsins þar sem hluti þeirra mótmæla því harðlega að maður sem hafi beitt konu ofbeldi fái að spila aftur fyrir liðið, og gerðu það til að mynda fyrir og á meðan leik liðsins gegn Wolves í ensku úrvalsdeildinni stóð á mánudag.
Hluti stuðningsmanna vill svo gjarna fá hann aftur í hópinn þar sem sóknarmaðurinn hafi ekki verið dæmdur fyrir rétti.