Enskir miðlar greina frá því í dag að forráðamenn enska úrvalsdeildarfélagsins í fótbolta, Manchester United, íhugi að hætta við að setja Mason Greenwood aftur í leikmannahóp liðsins.
Richard Arnold, framkvæmdastjóri félagsins, hafði ákveðið að tilkynna endurkomu Greenwood en þær fregnir láku út og vöktu mismikla ánægju meðal stuðningsmanna félagsins.
Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, og John Murtough, yfirmaður knattspyrnumála, eru á meðal þeirra sem vilja Greenwood aftur í leikmannahópinn.
Greenwood var handtekinn í janúar á síðasta ári og var síðar ákærður fyrir tilraun til nauðgunar og líkamsárás í garð kærustu sinnar, Harriet Robson. Hann hefur ekki spilað fyrir uppeldisfélag sitt síðan þá.
Málið var látið niður falla þegar lykilvitni hætti við að bera vitni.
Sjónvarpskonan Rachel Riley sagðist myndu hætta að styðja Manchester United ef af endurkomu Greenwood yrði og þá eru leikmenn kvennaliðs félagsins sagðir mjög ósáttir við áform félagsins.
Félagið hefur ekki viljað tjá sig um málið og er sagt hvorki vilja ræða það á leikdegi né í aðdraganda úrslitaleiks Englands og Spánar á HM kvenna sem fram fer í Sidney í Ástralíu á morgun.
Manchester United heimsækir Tottenham í 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag. United er með þrjú stig eftir sigur gegn Wolves í fyrstu umferð en Tottenham með eitt stig eftir að hafa gert jafntefli við Brentford.
Leikur Tottenham og Manchester United á Tottenham Hotspur-leikvanginum hefst klukkan 16:30 í dag og verður í beinni textalýsingu á mbl.is.