Yfirgefur United eftir 15 ára dvöl

Mason Greenwood.
Mason Greenwood. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur tilkynnt að sóknarmaðurinn Mason Greenwood sé á förum frá félaginu eftir að eigin rannsókn félagsins í tengslum við sakamál á hendur honum lauk.

Greenwood var handtekinn í janúar á síðasta ári og síðar ákærður fyrir tilraun til nauðgunar og líkamsárás.

Fyrr á þessu ári var málið svo látið niður falla þegar lykilvitni í málinu vildi ekki lengur bera vitni.

Út frá þeim sönnunargögnum sem við höfum í höndunum höfum við komist að þeirri niðurstöðu að þau sönnunargögn sem hafi birst á samfélagsmiðlum hafi ekki sagt alla söguna og að Mason hafi ekki framið þá glæpi sem honum var upphaflega gefið að sök að hafa gert.

Að því sögðu, eins og Mason viðurkennir fúslega og opinberlega, hefur hann gert mistök sem hann tekur ábyrgð á,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá félaginu.

„Allir sem eiga hlut að máli, þar á meðal Mason, gangast við erfiðleikunum sem myndu fylgja því að hann kæmi ferli sínum aftur af stað hjá Manchester United.

Þess vegna höfum við í sameiningu komist að þeirri niðurstöðu að best væri fyrir hann að gera það annars staðar en á Old Trafford og við munum nú vinna að því með Mason að finna lausn til þess að koma því á fót,“ sagði einnig í tilkynningunni.

Greenwood er 21 árs og hefur verið á mála hjá Man. United frá því hann var sex ára gamall. Hefur sóknarmaðurinn ekkert spilað fyrir liðið frá því hann var handtekinn fyrir rúmu einu og hálfu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert