Salah til Sádi-Arabíu?

Mohamed Salah í leik með Liverpool gegn Bournemouth í ensku …
Mohamed Salah í leik með Liverpool gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi. AFP/Darren Staples

Sádiarabíska knattspyrnufélagið Al-Ittihad hefur áhuga á að festa kaup á Mohamed Salah, sóknarmanni enska félagsins Liverpool.

The Athletic greinir frá því að Al-Ittihad, sem stóð uppi sem sádiarabískur meistari á síðasta tímabili, hafi boðið Salah laun sem myndu gera hann að launahæsta knattspyrnumanni heims.

Salah skrifaði undir nýjan þriggja ára samning við Liverpool síðasta sumar og varð hann með því launahæsti leikmaður í sögu enska félagsins með um 350.000 pund í vikulaun.

Liverpool stendur fast á sínu og segir Salah einfaldlega ekki til sölu en félagaskiptaglugganum í Sádi-Arabíu verður ekki lokað fyrr en þann 20. september og mun Al-Ittihad því halda áfram að reyna við egypska markaskorarann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert