Liverpool hafnaði 25 milljarða tilboði í Salah

Mohamed Salah (t.v.) er ekki til sölu.
Mohamed Salah (t.v.) er ekki til sölu. AFP/Lindsey Parnaby

Enska knattspyrnufélagið Liverpool hefur hafnað himinháu tilboði sádiarabísku meistaranna í Al-Ittihad í egypska sóknarmanninn Mohamed Salah.

Tilboðið hljóðaði upp á alls 150 milljónir punda, sem samsvarar rétt rúmlega 25 milljörðum íslenskra króna.

Al-Ittihad bauð 100 milljónir þegar í stað auk 50 milljóna að vissum ákvæðum uppfylltum.

The Athletic greinir frá því að Liverpool hafi tafarlaust hafnað tilboði Sádanna, Salah sé einfaldlega ekki til sölu, og líti svo á að málinu sé lokið.

Sádiarabíska félagið lítur hins vegar ekki svo á, hyggst halda áfram að reyna að fá Salah til sín og hefur raunar til þess töluverðan tíma til viðbótar þar sem félagaskiptaglugganum í Sádi-Arabíu verður ekki lokað fyrr en eftir þrjár vikur á meðan flestum félagaskiptagluggum í Evrópu verður lokað í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert