Kaide Gordon, vængmaður Liverpool, sneri aftur á knattspyrnuvöllinn eftir rúmlega eins og hálfs árs fjarveru vegna meiðsla í gær þegar hann tók þátt í leik U21-árs liðsins gegn Middlesbrough.
Kom hann inn á sem varamaður í 1:4-tapi.
Gordon hafði ekki spilað síðan í febrúar á síðasta ári þegar hann greindist með stoðkerfisvandamál í mjaðmagrindinni, vandamál sem steðjar að ungmennum og má lýsa sem eins konar vaxtarverkjum.
Hann er enn aðeins 18 ára gamall en hefur þegar spilað fjóra leiki fyrir aðallið Liverpool og skorað eitt mark. Fyrsti leikurinn kom þegar Gordon var aðeins 16 ára gamall.
Á Instagram-aðgangi sínum sagði Gordon það vera frábært að snúa aftur á völlinn eftir 19 mánaða fjarveru og að nú mætti eiga von á því að hann tæki þátt í mun fleiri leikjum.