Ver markið í liði umferðarinnar

Jökull Andrésson ver mark Carlisle á Englandi.
Jökull Andrésson ver mark Carlisle á Englandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Markvörðurinn efnilegi Jökull Andrésson er í úrvalsliði umferðarinnar í ensku C-deildinni í knattspyrnu eftir frammistöðu sína um helgina.

Jökull, sem er nýorðinn 22 ára, leikur nú með Carlisle, í láni frá Reading. Liðið gerði jafntefli við Stevenage á útivelli, 2:2, á laugardaginn en Jökull varði einmitt mark Stevenage í nokkrum leikjum í D-deildinni á síðasta tímabili.

Þetta var þriðji leikur Jökuls með Carlisle sem er með sex stig eftir sjö leiki á tímabilinu og er í 19. sæti af 24 liðum í deildinni.

Stuðningsfólk Carlisle valdi Jökul mann leiksins gegn Stevenage og Paul Simpson knattspyrnustjóri hrósaði honum mikið fyrir frammistöðuna. „Þetta er ástæðan fyrir því að ég vildi fá hann til liðs við okkur, hann er frábær á milli stanganna," sagði Simpson á heimasíðu félagsins eftir leikinn og sagði jafnframt að gríðarlega hörð samkeppni væri á milli markvarðanna tveggja í liðinu.

The Football League Paper velur Jökul í mark úrvalsliðsins, sem sjá má hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert