Kemur varnarmanninum til varnar

Harry Maguire hefur fengið sinn skerf gagnrýni undanfarið.
Harry Maguire hefur fengið sinn skerf gagnrýni undanfarið. AFP/Paul Faith

Fyrrverandi fótboltamaðurinn og sparkspekingurinn Jamie Carragher hefur komið enska varnarmanninum Harry Maguire til varnar eftir að sá síðarnefndi hefur hlotið mikla gagnrýni á síðustu mánuðum. 

Maguire kom inn á sem varamaður í vináttuleik Englands og Skotlands í stöðunni 2:0 fyrir Englandi. Eftir að hafa verið inn á vellinum í stuttan tíma skoraði varnarmaðurinn sjálfsmark og hlaut að verðlaunum mikla gagnrýni á samfélagsmiðlum. Gagnrýnin gekk svo langt að móðir Maguire taldi sig knúna til þess að stíga inn í og verja son sinn. 

Carragher heldur því fram að Maguire þurfi meira traust, stuðning og virðingu frá liðsfélögum sínum og segir Carragher að nýr markvörður Manchester United, Andre Onana, þurfi að hugsa sinn gang eftir að hann öskraði á Maguire á undirbúningstímabilinu.

Hann segir að Onana hafi reynt að ganga í augun á stuðningsmönnum Manchester United með því að úthúða varnarmanninum sem hefur í þónokkurn tíma verið óvinsæll hjá stuðningsmönnunum. 

„Mér líður eins og hann hafi verið að reyna sýna sig of mikið. Að úthúða leikmanni með brotið sjálfstraust. Harry Maguire svaraði honum ekki einu sinni, þótt hann hafi haft fullan rétt á því.“

Andre Onana gekk til liðs við Manchester United frá Inter Milan fyrir 47 milljónir punda en Erik Ten Hag var þjálfari Onana hjá Ajax á árum áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert