VAR-dómarinn faldi sig á bakvið reglurnar

Mikið gekk á í leik Tottenham og Liverpool á laugardag.
Mikið gekk á í leik Tottenham og Liverpool á laugardag. AFP/Henry Nicholls

Keith Hackett, fyrrverandi framkvæmdastjóri samtaka atvinnudómara á Englandi, PGMOL, segir VAR-dómarann Darren England hafa átt að styðjast við heilbrigða skynsemi þegar hann áttaði sig á mistökum sínum í leik Tottenham Hotspur og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla á laugardag.

VAR dæmdi sem kunnugt er löglegt mark af Liverpool vegna rangstöðu þar sem myndbandsdómararnir misskildu hvað hafði verið dæmt á vellinum.

„Það var stórmerkilegt að hlusta á hljóðupptökuna af því sem fór fram á milli VAR-dómara í tapi Liverpool fyrir Tottenham á laugardag. Svakaleg vanhæfnin varð öllum ljós.

Þetta lítur hræðilega illa út fyrir alla sem eiga hlut að máli, ekki síst PGMOL og Darren England, myndbandsdómarann sem er í miðri hringiðunni,“ skrifar Hackett í pistli sem Telegraph birti.

Fer gegn anda leiksins

Í 5. grein knattspyrnulaganna stendur:

„Dómarinn getur ekki breytt úrskurði sínum um hvernig hefja skuli leik að nýju jafnvel þó hann komist sjálfur að raun um, eða eftir ábendingu annarra í dómarateyminu, að dómurinn sé rangur, ef leikurinn hefur verið hafinn að nýju.“

Tottenham tók aukaspyrnu eftir að rangstaða var ranglega dæmd og því kvaðst England ekkert geta gert eftir að mistökin uppgötvuðust.

Hackett er þó á því að hann hefði samt sem áður átt að dæma mark.

„Darren England faldi sig á bakvið reglurnar í stað þess að breyta rétt. Að endurskoða ekki hina fullkomlega röngu VAR-ákvörðun fer gegn anda leiksins,“ skrifaði dómarinn fyrrverandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert