Stjórn Manchester United kýs um tilboð Ratcliffes

Jim Ratcliffe.
Jim Ratcliffe. AFP

Stjórn enska knattspyrnufélagsins Manchester United mun á næstu dögum kjósa um hvort hún samþykki tilboð enska auðkýfingsins Sir Jim Ratcliffe í 25 prósenta eignarhlut í félaginu eður ei.

Ratcliffe, einn ríkasti maður Bretlandseyja, lagði um helgina fram formlegt tilboð upp á 1,3 milljarða punda fyrir eignarhlutinn og er nú einn um hituna.

Katarski sjeikinn Jassim bin Hamad Al-Thani heltist úr lestinni í kjölfar þess að núverandi eigendur Man. United, hin bandaríska Glazer-fjölskylda, höfnuðu tilboði hans í 100 prósenta eignarhlut.

Samkvæmt heimildum The Guardian er Ratcliffe, sem er stærsti einstaki landeigandi á Íslandi, vongóður um að Glazer-fjölskyldan samþykki tilboð sitt.

Er þá talið að tilboð hans sé þetta hátt, en félagið í heild er verðmetið á 2,63 milljarða punda, þar sem Ratcliffe vonist til þess að öðlast stjórn á öllu sem viðkemur knattspyrnudeild félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert