„Hann kemur inn á, var ógeðslega lélegur, og svo kórónar hann eigin frammistöðu með því að slá í puttana á Jérémy Doku og er með stæla,“ sagði umsjónarmaðurinn Bjarni Helgason í Fyrsta sætinu þegar rætt var um enska boltann.
Antony, sóknarmaður Manchester United, átti ekki góðan dag þegar liðið tapaði gegn Manchester City, 3:0, í nágrannaslag ensku úrvalsdeildarinnar á Old Trafford í Manchester á sunnudaginn var.
Antony, sem byrjaði á bekknum í leiknum og kostaði 82 milljónir punda, kom inn á sem varamaður á 86. mínútu en tókst ekki að setja mark sitt á leikinn en hann er næstdýrasti leikmaður í sögu félagsins.
„Áður en Doku byrjaði að dingla puttanum reyndi hann að sparka hann niður og þetta var í raun bara eitthvert spark út í loftið. Hann var heppinn að fá ekki rautt spjald,“ sagði Jökull Þorkelsson, íþróttablaðamaður á mbl.is og Morgunblaðinu.
„Hann sat á varamannabekknum, hristandi hausinn og horfandi út í loftið, og kemur svo inn á með þessa frammistöðu,“ sagði Jökull meðal annars en þá var því einnig velt upp hvort Antony væru verstu kaupin í sögu United.