Eitt mark dugði Newcastle gegn Arsenal

Anthony Gordon kemur boltanum í netið í dag.
Anthony Gordon kemur boltanum í netið í dag. AFP/Oli Scarff

Newcastle hafði betur gegn Arsenal, 1:0, á St. James Park í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Það var Anthony Gordon sem skoraði sigurmark Newcastle á 64. mínútu leiksins.

Leikmenn Arsenal gerðu allt sem þeir gátu til að jafna metin eftir þetta mark Newcastle en heimamenn vörðust ansi vel á lokakaflanum og lönduðu stigunum þremur sem í boði voru.

Eftir þennan sigur er Newcastle komið í sjötta sæti deildarinnar með 20 stig en Arsenal er áfram í þriðja sæti deildarinnar með 24 stig.

Engin alvöru marktækifæri

Heimamenn byrjuðu leikinn vel en fljótlega tóku leikmenn Arsenal öll völd á vellinum. Liðin voru þó ekki að skapa sér nein alvöru marktækifæri í fyrri hálfleik. Besta tækifæri Newcastle í fyrri hálfleik fékk Anthony Gordon á 41. mínútu leiksins en þá fékk hann góða sendingu frá Kieren Trippier en Gordon náði ekki að taka nægilega vel á móti boltanum og missti hann frá sér og David Raya náði að grípa boltann. Í uppbótartíma í fyrri hálfleik fékk svo Gabriel Martinelli góða sendingu frá Declan Rice og kom sér í gott skotfæri sem skot hans var ekki gott og Nick Pope varði það örugglega.

Talsverður hiti var í fyrri hálfleik á St. James' Park …
Talsverður hiti var í fyrri hálfleik á St. James' Park í dag. Nokkur spjöld fóru á loft en hér eru það Brasilíumaðurinn, Bruno Guimaraes og Englendingurinn Declan Rice sem eiga í útistöðum. Báðir sluppu þó við spjald. AFP/Oli Scarff
AFP/Oli Scarff

Hiti og umdeilt mark

Það var mikill hiti í mönnum í þessum leik og baráttan í fyrirrúmi. Það var svo loksins á 64. mínútu leiksins sem Newcastle komst yfir með marki Anthony Gordon. Fyrst átti Jacob Murphy skot á markið sem fór nánast í innkast en Joe Willock náði boltanum áður en hann fór útaf og kom boltanum fyrir. Þar var Joelinton í baráttu við varnarmann Arsenal og hafði betur, David Raya missti af boltanum og Gordon var einn á auðum sjó og setti boltann í netið.

Það tók reyndar nokkrar mínútur að staðfesta markið en samkvæmt upplýsingum frá Englandi voru þrjú atriði skoðuð í VAR-herberginu í aðdraganda marksins sem Newcastle skoraði. Fyrst var skoðað hvort boltinn hefði farið útaf áður en Joe Willock sendi fyrir markið, svo var það skoðað hvort Joelinton hefði verið brotlegur í teignum í baráttu um boltann og svo að lokum var það skoðað hvort Gordon hefði verið rangstæður þegar hann fékk boltann áður en hann setti boltann yfir línuna. Að lokum komst dómarateymið að þeirri niðurstöðu að boltinn hefði ekki farið útaf, Joelinton hafi ekki gerst brotlegur og Gordon ekki verið rangstæður. Því stóð markið.

Eftir markið reyndi Arsenal að jafna metin en leikmenn Newcastle vörðust mjög vel. Arsenal náði ekki að skapa sér nein alvöru marktækifæri og því voru lokatölur 1:0 fyrir Newcastle. 

Mbl.is fylgdist með gangi mála og færði ykkur það helsta í beinni textalýsingu. 

Newcastle 1:0 Arsenal opna loka
90. mín. +4 - Trossard tekur hornið en varnarmenn Newcastle skalla þessu frá.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka