Franski knattspyrnumaðurinn Kylian Mbappé gæti verið á leiðinni til Englands þegar samningur hans við París SG í Frakklandi rennur út næsta sumar.
Það er vefmiðillinn FourFourTwo sem greinir frá þessu en Mbappé, sem er 24 ára gamall, hefur verið sterklega orðaður við Real Madrid undanfarin ár.
Hann mun að öllum líkindum yfirgefa París SG á frjálsri sölu næsta sumar en Chelsea, Liverpool, Manchester United og Newcastle hafa öll mikinn áhuga á honum.
Mbappé gekk til liðs við PSG frá uppeldisfélagi sínu Monaco árið 2017 en hann á að baki 274 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 224 mörk og lagt upp önnur 99.
Þá á hann að baki 72 A-landsleiki fyrir Frakkland þar sem hann hefur skorað 42 mörk en hann varð heimsmeistari með Frökkum árið 2018 í Rússlandi.