Enska úrvalsdeildin í knattspyrnu karla hefur tekið ákvörðun um að draga tíu stig af Everton vegna brota félagsins á reglum deildarinnar um hagnað og sjálfbærni í rekstri.
The Times greinir frá.
Enska úrvalsdeildin fór fram á að tólf stig yrðu dregin af liðinu en þar sem deildin gat ekki tekið þá ákvörðun einhliða kom það í hlut óháðrar nefndar að ákvarða refsingu Everton.
Við frádrátt stiganna fer Everton úr 14. sæti deildarinnar niður í 19. og næstneðsta sæti, sem er fallsæti.
Liðið var búið að vinna sér inn 14 stig í fyrstu 12 leikjunum en mun nú vera með fjögur stig, jafnmörg og botnlið Burnley og tveimur stigum frá öruggu sæti.
Í yfirlýsingu frá Everton segir meðal annars að félagið sé í áfalli yfir úrskurði nefndarinnar, því þyki hann óréttlátur og að félagið hyggist áfrýja málinu.
Þar segir einnig að Everton muni fylgjast grannt með ákvörðunum í máli annarra félaga í tengslum við brot á reglum úrvalsdeildarinnar um hagnað og sjálfbærni, og vísar félagið þar eflaust til rannsóknar á alls 115 meintum brotum Manchester City á þessum reglum.