Krefur City um milljarða vegna vangoldinna launa

Benjamin Mendy er nú leikmaður Lorient í heimalandinu.
Benjamin Mendy er nú leikmaður Lorient í heimalandinu. AFP/Damien Meyer

Franski knattspyrnumaðurinn Benjamin Mendy hefur ákveðið að höfða mál gegn fyrrverandi vinnuveitendum sínum, enska félaginu Manchester City, þar sem hann telur það skulda sér margar milljónir punda í vangoldin laun.

Frá og með september árið 2021 frysti Man. City laun Mendys, sem námu 100.000 pundum á viku, í kjölfar þess að hann var ákærður fyrir kynferðisbrot í ágúst árið 2021.

Síðar var Mendy ákærður fyrir annað kynferðisbrot gagnvart annarri konu. Fyrir dómstól í Chester var hann ekki fundinn sekur, í hvorugu málinu, fyrr á þessu ári.

Sky Sports greinir frá því að Mendy telji Man. City ekki hafa mátt frysta laun hans allt frá því í byrjun september 2021 þar til í júní á þessu ári, þegar samningur hans rann sitt skeið, á meðan málaferlum stóð.

Því hafi lögfræðingar hans lagt fram kröfu til atvinnudómstóls á Bretlandseyjum.

Rúmar 95 vikur liðu frá því að laun Mendys voru fryst og samningurinn rann út og mun hann því krefja félagið um að greiða sér 9,5 milljónir punda, sem nemur tæplega 1,7 milljörðum íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert