Missir starfið hjá United með tilkomu Ratcliffe

Sir Jim Ratcliffe.
Sir Jim Ratcliffe. AFP/Valery Hache

John Murtough, yfirmaður knattspyrnumála hjá Manchester United, mun missa starf sitt hjá félaginu þegar Sir Jim Ratcliffe gengur frá kaupunum á 25% hlut sínum í félaginu.

Það er Manchester Evening News sem greinir frá þessu en Ratcliffe, sem er 71 árs gamall, er ríkasti maður Bretlandseyja og mikill stuðningsmaður United.

Ratcliffe borgar í kringum 1,3 milljarða punda fyrir eignarhlut sinn í félaginu en hann hefur sjálfur gefið það út að markmiðið hans sé að eignast meirihlutaeign í félaginu á einhverjum tímapunkti.

Manchester Evening News greinir frá því að Ratcliffe hafi lagt fram þá kröfu að hann vilji fá úrslitavægi þegar kemur að knattspyrnutengdum ákvörðunum innan félagsins.

Richard Arnold mun stíga til hliðar sem framkvæmdastjóri eftir yfirstandandi tímabil og Murtough er næsti maður út um dyrnar en hann hefur gegnt starfi yfirmanns knattspyrnumála frá árinu 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert