Hjálpaði ímynd Arsenal ekki neitt

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal. AFP/Oli Scarff

David Dein, fyrrverandi varaformaður enska knattspyrnufélagsins Arsenal, var ekki hrifinn af viðbrögðum Mikel Arteta, knattspyrnustjóra karlaliðsins, eftir 1:0-tap fyrir Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni fyrr í mánuðinum.

Arteta hraunaði yfir dómgæsluna í leiknum og þótti sem sigurmark Anthonys Gordons hafi alls ekki átt að fá að standa. Félagið gaf svo frá sér yfirlýsingu þar sem það studdi við bakið á spænska stjóranum og ummælum hans.

„Á 101 spilaðri mínútu áttum við einungis eitt skot á markið þannig að það er ekki hægt að segja að við höfum átt skilið að vinna. Svona er þetta.

Það er ferli til staðar þar sem er útlistað hvernig á að höndla svona mál og mér fannst þetta svolítið ónauðsynlegt. Ég held að þetta hafi ekki hjálpað ímynd félagsins neitt,“ sagði Dein í samtali við Talksport.

Hefði ekki gerst hjá mér

Dein var varaformaður Arsenal um 24 ára skeið, á árunum 1983 til 2007, og var spurður hvort svona nokkuð hefði gerst þegar hann var í stjórnunarstöðu hjá félaginu.

„Þetta hefði ekki gerst. En þetta er leikur sem einkennist af miklum tilfinningum og svona hlutir gerast. Ég tel þetta vera óheppilegt en maður lifir og lærir.

Ég hefði líklega refsað Arteta en ég hefði samt ekki viljað grafa undan stjóranum. Knattspyrnustjórinn var sannfærður um þetta í hita leiksins.

Ég var á þessum Newcastle-leik og hann var pirraður vegna þess að honum leið sem ákvarðanir væru teknar gegn honum,“ sagði Dein.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert