Knattspyrnumaðurinn Luke Shaw hefur hafið æfingar á nýjan leik með enska úrvalsdeildarfélaginu Manchester United.
Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum en Shaw, sem er 28 ára gamall, hefur verið frá keppni vegna vöðvameiðsla síðan í ágúst.
Vinstri bakvörðurinn hefur verið í stóru hlutverki hjá United frá því að Erik ten Hag tók við stjórnartaumunum hjá félaginu sumarið 2022.
Alls á hann að baki 262 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað fjögur mörk og lagt upp önnur 28 en hann gekk til liðs við United frá Southampton árið 2014.
Mikil meiðsli hafa herjað á United allt tímabilið en þeir Casemiro, Lisandro Martínez, Christian Eriksen, Rasmus Höjlund, Jonny Evans, Aaron Wan-Bissaka, Tyrell Malacia og André Onana eru allir meiddir.