Liverpool krefur úrvalsdeildina um svör vegna City

Knattspyrnustjórarnir Jürgen Klopp og Pep Guardiola.
Knattspyrnustjórarnir Jürgen Klopp og Pep Guardiola. AFP/Paul Ellis

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool hafa sett mikla pressu á forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar um að niðurstaða fáist sem fyrst í mál Englandsmeistara Manchester City.

Það er Football365 sem greinir frá þessu en City var kært fyrir 115 brot á fjármálareglum deildarinnar í febrúar á þessu ári.

Tíu stig voru dregin af Everton á dögunum fyrir að brjóta eina reglu um brot á fjármálareglum deildarinnar og forráðamenn Liverpool hafa sett fram þá kröfu að það verði komin niðurstaða í málefni City áður en næsta keppnistímabil hefst.

Óháð nefnd á vegum deildarinnar er nú að skoða fjölmörg brot City sem áttu sér stað á árunum 2009 til 2018.

City gæti átt yfir höfðu sér mjög þunga refsingu og gæti félagið verið svipt öllum titlum sem það vann á þessum tíma. Þá gæti það átt von á stigafrádrætti eða verið sent niður um deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert