Leikmaður United íhugar að skipta um ríkisfang

Aaron Wan-Bissaka í leik með Manchester United.
Aaron Wan-Bissaka í leik með Manchester United. AFP

Knattspyrnumaðurinn Aaron Wan-Bissaka, hægri bakvörður Manchester United, íhugar nú hvort hann eigi að samþykkja boð knattspyrnusambands Lýðveldisins Kongó um að leika fyrir landslið þjóðarinnar.

Wan-Bissaka, sem er 25 ára, er fæddur og uppalinn á Englandi en á ættir að rekja til Afríkuþjóðarinnar og getur því skipt um ríkisfang í því skyni að spila fyrir Lýðveldið Kongó.

The Athletic greinir frá því að knattspyrnusamband þjóðarinnar vilji gjarna fá Wan-Bissaka til þess að spila fyrir landsliðið og vonist til þess að hann geti tekið þátt í Afríkumótinu sem fer fram á Fílabeinsströndinni í upphafi næsta árs.

Wan-Bissaka á að baki fimm leik fyrir yngri landslið England og einn fyrir U20-ára lið Lýðveldisins Kongó en hefur aðeins einu sinni verið valinn í A-landsliðshóp Englands og aldrei spilað landsleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert